Bergþóra Þorsteinsdóttir
“Hæ, þetta er konan þín.” Það er sunnudagur á Þjóðhátíð í Eyjum, 3. ágúst 2003. Hún hittir vin sinn og biður hann um handahófskennt símanúmer hjá karlmanni sem hún getur grínast í. Þetta árið er Nokia vinsælasti síminn og sms-skilaboðin að ná hámarki. Vinurinn gefur henni símanúmer karlmanns sem einnig er staddur á Þjóðhátíð. Hún sendir sms: Hæ, þetta er konan þín. Hvenær ætlaðirðu að hitta mig?. Hann svarar: “Í kvöld. Væri samt ágætt að vita hver konan mín er”. Kvöldið kemur og hún fer dansandi inn í dalinn, með jólakúlur í eyrunum. Þar finnur hún hann, dreng í appelsínugulum sjóaragalla og situr með honum út allan brekkusönginn. Alla þá nótt hrífur hann hana með undurfögrum söng og gítarspili. Undir morgun fer hann á skeljarnar, segir “viltu giftast mér” og ber hring úr strái á fingur hennar - allt í gamni. Leiðir skilja og nokkrum dögum síðar sendir hún aftur sms: “Hvað er verið að gera?”. Hann svarar:”Er á leið í bíó með strákunum”. Hún skrifar:”…og mér er ekki boðið með?”. Þau hittust svo í bíó sama kvöld. Bíóstefnumótið leiðir til vídjóstefnumóts. Örfáum dögum síðar flýgur hann til síns heima í Noregi þar sem að hann er við háskólanám og hún flýgur á vit ævintýranna og flytur til Kaupmannahafnar til að byrja sitt háskólanám. Í 3 ár eru þau í fjarlægðarsambandi, hann í Osló og hún í Kaupmannahöfn og aðra hverja helgi fara þau til skiptis í 8 tíma rútuferð á milli stórborganna til þess að hittast. 2006 taku þau ákvörðun um að hún flytji til hans og trúlofa sig sama ár. Í dag, 12 árum eftir þetta afdrifaríka sms, hafa þau verið trúlofuð í 9 ár, eru þremur dætrum ríkari og munu gifta sig í Reykjavík 25. júlí 2015.
Meira