Fyrir bestu söguna

Bergþóra Þorsteinsdóttir

“Hæ, þetta er konan þín.” Það er sunnudagur á Þjóðhátíð í Eyjum, 3. ágúst 2003. Hún hittir vin sinn og biður hann um handahófskennt símanúmer hjá karlmanni sem hún getur grínast í. Þetta árið er Nokia vinsælasti síminn og sms-skilaboðin að ná hámarki. Vinurinn gefur henni símanúmer karlmanns sem einnig er staddur á Þjóðhátíð. Hún sendir sms: Hæ, þetta er konan þín. Hvenær ætlaðirðu að hitta mig?. Hann svarar: “Í kvöld. Væri samt ágætt að vita hver konan mín er”. Kvöldið kemur og hún fer dansandi inn í dalinn, með jólakúlur í eyrunum. Þar finnur hún hann, dreng í appelsínugulum sjóaragalla og situr með honum út allan brekkusönginn. Alla þá nótt hrífur hann hana með undurfögrum söng og gítarspili. Undir morgun fer hann á skeljarnar, segir “viltu giftast mér” og ber hring úr strái á fingur hennar - allt í gamni. Leiðir skilja og nokkrum dögum síðar sendir hún aftur sms: “Hvað er verið að gera?”. Hann svarar:”Er á leið í bíó með strákunum”. Hún skrifar:”…og mér er ekki boðið með?”. Þau hittust svo í bíó sama kvöld. Bíóstefnumótið leiðir til vídjóstefnumóts. Örfáum dögum síðar flýgur hann til síns heima í Noregi þar sem að hann er við háskólanám og hún flýgur á vit ævintýranna og flytur til Kaupmannahafnar til að byrja sitt háskólanám. Í 3 ár eru þau í fjarlægðarsambandi, hann í Osló og hún í Kaupmannahöfn og aðra hverja helgi fara þau til skiptis í 8 tíma rútuferð á milli stórborganna til þess að hittast. 2006 taku þau ákvörðun um að hún flytji til hans og trúlofa sig sama ár. Í dag, 12 árum eftir þetta afdrifaríka sms, hafa þau verið trúlofuð í 9 ár, eru þremur dætrum ríkari og munu gifta sig í Reykjavík 25. júlí 2015.

Meira

Kjósa

Freyja Leópoldsdóttir

Sagan okkar Eiríks
Ég bjó í Danmörku og óviss hvort ég ætti að flytja aftur til Íslands og kom því tímabundið heim í lok ágúst 2011 og flyt inn á foreldra mína eftir nokkra ára fjarveru.

Móðir mín hefur verið þreytt á að fá mig aftur heim, því þegar ég sótti hana og föður minn á vinnuskemmtun í október það ár segist hún vera búin að finna mann fyrir mig. Hún var varla sest inn í bílinn hjá mér þegar hún byrjar að tala um ágæti þessa manns og hvað við ættum sameiginlegt. Mamma endaði ræðuna á því að hún hefði lofað manninum að ég hefði samband og rétti mér gulan post-it miða með símanúmerinu hans. (Miðinn hafði áður verið notaður í annað).

Ég var yfir mig hneyksluð á afskiptasemi móður minnar, enda langt komin á þrítugsaldurinn!  En forvitnin rak mig áfram og ég fletti númerinu upp á ja.is til að fá fullt nafn. Því næst gúgglaði ég manninn en það var eins og hann væri ekki til! Hreinn skjöldur...

  Daginn eftir fór ég á djammið og eftir nokkra drykki var mér hugsað til gula miðans... Ég var þó ekki með hann en mundi nafnið á manninum og fletti honum upp á ja.is í símanum. Þá var hægt að ýta beint á hnappinn "senda sms" - sem ég gerði! Já maðurinn fékk sms um miðja nótt frá ja.is með innihaldinu: "hæ, ertu að djamma? Freyja s: xxx-xxxx"

Ekkert svar barst og var ég með smá hallærismóral daginn eftir! Um kvöldið kom þó sms frá honum og út frá því förum við að spjalla. Við fórum á blint stefnumót 3 dögum seinna sem gekk það vel að ég fór aldrei aftur til Danmerkur nema rétt til að sækja búslóðina, Við vorum flutt saman stuttu seinna, eignuðumst dóttur okkar 2013 og hann bað mín svo 20. febrúar sl.  Ég á því fallegan trúlofunarhring frá Jóni og Óskari en hann engan. Brúðkaupið verður 2017 og erum við búin að ákveða að gefa okkur hringana í jólagjöf í ár þannig að hann geti einnig verið með hring þar til við bíðum eftir stóra deginum.

Mér finnst sagan okkar einstaklega skemmtileg og móðir mín montar sig hiklaust af því að hafa valið tengdasoninn sjálf ;)

Meira

Kjósa

Jóhanna Íris Ingólfsdóttir

Það var sumarið 2013 og ég var að vinna á veitingastað á Höfn í Hornafirði sem sérhæfir sig í humri og þetta kvöld var von á stórum hópi frá Hollandi. Þegar fólkið kemur tek ég eftir myndarlegum manni sem ég heilsa eins og einum úr hópnum en kemst svo að því þegar ég fer að taka drykkjarpantanir að hann er Íslendingur og er bílstjórinn þeirra. Við áttum ekki í frekari samskiptum nema þegar ég kom með matinn til hans segi ég við hann Hva, borðaru ekki humar? þar sem hann var með annan rétt en hinir. Hann hlær og segir að hann sé með ofnæmi fyrir honum. Eftir matinn fer hann á undan hópnum og ég brosi bara yfir því að loksins hafi komið ungur heitur rútubílstjóri sem gerði kvöldið ögn skemmtilegra fyrir augað. En eitthvað hefur leiðsögumaður hópsins sem var hollensk fundið á sér því hún stoppaði mig og fer að spyrja mig allskonar spurninga um mig og bæinn og endar svo samtalið á því að spyrja hvort að hún megi ekki senda mér vinabeiðni á Facebook því hún eigi eftir að koma aftur með hóp þetta sumar og ef að hún hefði einhverjar spurningar væri gott að þekkja einhvern á staðnum. Aldrei fékk ég vinabeiðnina frá henni, en kvöldið eftir fékk ég skilaboð frá heita rútubílstjóranum. Síðan eru liðin tvö ár, hann flutti til mín á Höfn vorið 2014. Við eigum von á barni núna í júlí og erum búin að bóka brúðkaup 23. júlí 2016. :)

Meira

Kjósa

Kristín Lilja Friðriksdóttir

Ég kynntist ástinni minni 10. október 2010 - eða 10.10.10. Ég var í brúðkaupi hjá frænku minni þann 9.10.2010 og þar greip ég brúðarvöndinn þegar hún kastaði honum. Að brúðkaupi loknu lá leiðin á lokahóf FH í Kaplakrika (með brúðarvöndinn í veskinni) til að dansa. Á dansgólfinu hjá okkur stelpunum birtast svo allt í einu þrír strákar og einn þeirra var mjög svo fyrir mér svo ég ýti í bakið á honum og hann snýr sér við og þá gerðist eitthvað - hans pick up lína var eitthvað í þessa áttina Þeir eru kannski myndarlegri en ég, en ég er sko miklu skemmtilegri en þeir. Við höfum svo verið saman síðan þá og eigum 2 yndisleg börn, einn strák sem er tæplega 3ja ára og stelpu sem er 8 mánaða. Við erum svo að fara að gifta okkur á 5 ára sambandsafmælinu okkar, 10.október 2015.

Meira

Kjósa

Linda Björk Jónasdóttir

Ég kynntist mínum þegar við vorum bara litlir pollar því að foreldrar okkar eru æsku vinir og vorum við mikið saman þegar við vorum börn og hann var alltaf voðalega skotin í mér og bjó til allskonar kossa leiki eins og prinsessan og prinsinn svo áttum við að leggjast svo sagði hann núna á prinsinn að kyssa prinsessuna og svo í sumarbústaðarferðum setti hann alltaf hendina undir koddan hjá mér. Maður vissi ekki þá að hann myndi verða eiginmaður minn. Í dag erum við búin að vera saman í 15 ár og giftum okkur núna 13 júní. Ást við fyrstu sýn.

Meira

Kjósa

Sara Sturludóttir

Einn rigningareftirmiðdag í Október 2006 var ég á leiðinni heim til mömmu í mat. Er ég keyrði eftir Miklubrautinni í gegnum Hlíðarnar í lélegu skyggni þurfti ég að nauðhemla þar sem lítill svartur bíll bremsaði harkalega á undan mér. Þetta fór auðvitað þannig að bíllinn á eftir mér skall á Toyotunni minni fínu. Strákurninn sem klessti á mig kom hlaupandi til mín í rigningunni og sagði mér að beygja inn á planið hjá 365, enda vorum við þar rétt við. Ég auðvitað í algjörum panikk beygði yfir allar akreinar og í veg fyrir einhvern bíl sem flautaði hátt og snjallt og elti mig inn á bílastæðið. Þar hoppaði út maður sem öskraði svoleiðis á mig að ég fór endanlega í mínus og ætlaði bara að keyra í burtu, enda ekki búin að sjá tangur né tetur af þessum strák sem keyrði á mig. Þegar ég er að keyra í burtu þá er bankað á gluggann og strákurinn mættur. Við lögðum í stæði og sátum saman í bílnum mínum og fylltum út skýrslu um áreksturinn. Síðan hélt ég bara heim á leið til mömmu í mat. Tveimur dögum síðar hringdi strákurinn í mig, bara til að athuga með mig og spurði í leiðinni hvort ég hefði áhuga á að hitta hann aftur sem ég og vildi auðvitað. Símanúmerið hafði hann auðvitað fengið á árekstrarskýrslunni! En við höfum verið óaðskiljanleg síðan og er gifting á döfinni núna næsta árið þó ekki sé búið að plana daginn :-)

Meira

Kjósa

Sigurlaug Pétursdóttir

Við kynntumst 8.desember 2006. Ég var stödd heima hjá vinkonu minni og ætlaði að fá mér hvítvín með henni. En þegar ég bið um upptakara þá á hún ekki svoleiðis. Hún segir mér að banka uppá í næsta húsi, ég var fyrst treg við að fara og banka en lét mig svo hafa það. Á móti mér tók kona sem var stödd í útskriftarveislu hjá syni sínum ásamt mörgum öðrum gestum. Hún bauð mér inn til að opna flöskuna. Þegar sonur hennar loks birtist kynnir hún okkur og segir að ég sé útskriftargjöfin hans. Okkur leist líka svona vel á hvort annað, höfum verið saman frá þessu kvöldi :) Hann fór á skeljarnar í brekkunni á Þjóðhátíð 2.ágúst 2009, eigum þrjá syni og stefnum á brúðkaup 18.júní 2016 ;)

Meira

Kjósa

Thelma Björk Guðmundsdóttir

Árið 2009 var ég að ljúka 1. ári í sálfræði í HÍ og langaði mikið að finna mér áhugavert sumarstarf. Ég sá auglýsingu á mbl.is um vinnu á Fellsenda, hjúkrunarheimili fyrir geðfatlaða vestur í Dölum. Ég ákvað að flippa smá og sækja um. Mamma spurði hvort ég væri að djóka, hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að þetta sumar yrði skelfing þar sem ég þekkti ekki sálu þarna. Ég sagðist ekki halda það. Ég myndi bara finna mér einhvern álitlegan sveitastrák, fara út að borða og á deit með honum í Essó skálanum og gamna mér aðeins þessa þrjá mánuði sem ég yrði þar. Þetta var að sjálfsögðu meira sagt í gríni en alvöru og innst inni kveið ég þessu örlítið. Á degi tvö labba ég inn á kaffistofu og er þar kynnt fyrir nýja stráknum. Í ljós kom að hann yrði að vinna þarna þetta sumar og kæmi frá sveitabæ rétt hjá Búðardal! Ég ætlaði mér nú ekki margt með þennan dreng til að byrja með en eftir brjálað starfsmannadjamm í Búðardal, stað sem margir vilja kalla pissustopp en er í raun mekka skemmtunar og almennrar ánægju (reyndar ekki en hljómar vel), varð ekki aftur snúið og stungum við saman nefjum allan júlí. Þrátt fyrir þetta vorum við nú samt ekki opinberlega par.

Ég var svo að fara með tveimur af mínum bestu vinkonum á Þjóðhátíð í Eyjum og grunar mig að Hlyni Páli hafi ekki þótt sú tilhugsun mjög ánægjuleg, svona sérstaklega þar sem hann var ekki að fara og við hreint ekki lofuð hvort öðru. Hann tók málin því í sínar heldur og ákvað að elta ástina, já eða skotið, yfir hafið og hoppaði skyndilega um borð í þyrlu og mætti til Vestmannaeyja! Laugardaginn 31. júlí ákváðum við svo, mögulega örlítið (ókei svakalega) hífuð í brekkunni að vera kærustupar.

Þrátt fyrir að planið hafi ekki verið að enda þetta sumarstarf í langtímasambandi er eins og það hafi eitthvað verið skrifað um það í stjörnurnar. Ég hafði sótt um vinnu á Kleppi líka og fór í atvinnuviðtal þar. Mér leist einstaklega vel á en ca 25 mínútum eftir að ég kom út frá Kleppi hringdi Anna Margrét á Fellsenda og bauð mér starf þar, sem ég þáði. Daginn eftir var mér boðin staðan á Kleppi, sem var jú í Rvk og hefði hentað mikið betur en ég var, eins og ég sagði þann daginn, því miður búin að ráða mig á Fellsenda – sem betur fer:)

Nú erum við búin að vera saman í þónokkur ár, eigum saman tæplega 3ja ára strák og erum að fara að gifta okkur 8. ágúst. Það hafa ófáir hlegið þegar við höfum greint frá því að við höfum kynnst á heimili fyrir geðfatlaða og djókið “hvort ykkar var starfsmaður og hvort vistmaður” ótal oft ómað í eyrum okkar en ég er allavega einstaklega glöð að hafa ákveðið að fara út fyrir þægindarammann þetta sumar:)

Meira

Kjósa